• Spurt og svarað

    Spurt og svarað

    1. Hverjir eru skjólstæðingar Janusar endurhæfingar 
      Skjólstæðingar Janusar endurhæfingar eru ungt fólk utan vinnu, náms og virkni (NEET-hópur), sem á oft í erfiðleikum með að komast út úr herbergjum sínum eftir að hafa lokað sig af í langan tíma. Ungt fólk sem er ekki tilbúið í hefðbundin atvinnutengd úrræði.
    1. Hver er árangurinn af þjónustunni?
      Janus endurhæfing hefur veitt ungu fólki með fjölþættan vanda lífsnauðsynlega aðstoð. Að meðaltali síðustu 3 ár hafa rúmlega 56% þeirra sem hafa lokið þjónustu hjá Janusi endurhæfingu farið í nám, vinnu eða virka atvinnuleit.
    2. Hvað er sérstakt við Janus endurhæfingu?
      Janus endurhæfing hefur 25 ára reynslu af því að þróa og aðlaga endurhæfingu að þörfum skjólstæðinga. Þjónustan er einstaklingsmiðuð og er aðgengileg á einum og sama stað, sem er algjört lykilatriði fyrir hópinn. Geðlæknir, iðjuþjálfar, sálfræðingar, félagsráðgjafar og fleiri sérfræðingar mæta mismunandi þörfum hvers og eins þannig að viðkomandi nái sem bestum árangri.
      Beinn aðgangur að geðlækni undir sama þaki og viðkomandi sækir aðra þjónustu er lykilatriði. Aðgangur að geðlæknum í gegnum heilbrigðiskerfið er háður löngum biðlistum og má hópurinn alls ekki við slíkri bið.
    3. Hver er munurinn á VIRK og Janusi endurhæfingu?
      Virk er starfsendurhæfingarsjóður sem ber að styðja fólk til þátttöku á vinnumarkaði. Janus endurhæfing er hins vegar lífsbjargandi úrræði, geðendurhæfing sem aðstoðar viðkvæmustu ungmennin með fjölþætt vandamál til virkni í samfélaginu. Það er mat fagfélaga og hagsmunasamtaka að ekki sé hægt að líkja þessu tvennu saman. 
      VIRK starfsendurhæfingarsjóður virkjar fólk til atvinnu; Janus endurhæfing virkjar viðkvæman hóp til lífsins.
    4. Hvað eru stjórnvöld að gera?
      Stjórnvöld hafa ákveðið að endurnýja ekki þjónustusamning við Janus endurhæfingu. Á sama tíma hafa stjórnvöld ekki raunhæfa áætlun um þjónustu við núverandi skjólstæðinga Janusar endurhæfingar. Ekkert annað úrræði veitir sambærilega geðendurhæfingarmeðferð og Janus endurhæfing.
    5. Hvað segir samfélagið?
      Ótal fagfélög og hagsmunasamtök sem þekkja vel hópinn sem Janus endurhæfing þjónustar eru uggandi yfir þeirri stöðu sem blasir við ungmennunum þegar úrræðið mun loka þann 1. júní 2025. Þar á meðal eru Geðlæknafélag Íslands, Píeta samtökin, Iðjuþjálfafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Einhverfusamtökin, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Félagsráðgjafafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, og Þroskaþjálfafélag Íslands.
    6.  Hvað er til ráða?
      Eigendur Janusar endurhæfingar hafa lýst yfir vilja til að gera Janus endurhæfingu að sjálfseignarstofnun og að óhagnaðardrifin samtök taki sæti í stjórn fyrirtækisins.


    Við höfum stofnað undirskriftalista til að mótmæla þessari aðför að lífsbjargandi úrræði okkar. Værum þakklát fyrir stuðning þinn í verki.

    Undirskriftalistinn